VOTLÖND eru áhersluverkefni í samræmi við skipulagsskrá AUÐLINDAR þar sem lögð er áhersla á verndun vatnafars landsins á öræfum sem í byggð. Verkefnið VOTLÖND snýst um að efla votlendi Íslands og styrkja gæði og þjónustu sem votlendi veita svo sem bindingu kolefnis, miðlun vatns, hringrás næringarefna og þar með að vernda fjölbreytni lands og lífríkis.
VOTLÖND AUÐLINDAR styrkja félagasamtök og/eða einstaklinga til verkefna er tengjast vernd og endurheimt votlendis. Einnig geta VOTLÖND stofnað til eigin verkefna um endurheimt votlendis og fuglaverndar og veitt ráðgjöf á sviði votlendisverndar og endurheimtar í samvinnu við fræðastofnanir.Þá styðja VOTLÖND fræðslu og vitundarvakningu um mikilvægi votlendis í náttúru Íslands og á heimsvísu.