Guðmundur Páll Ólafsson

Guðmundur Páll Ólafsson var fæddur árið 1941 á Húsavík. Hann stundaði háskólanám og ýmis störf í Bandaríkjunum á árunum 1960–1966, lærði meðal annars köfun, myndlist og líffræði og lauk B.Sc gráðu frá Ohio State University. Frá 1966 til 1968 var hann skólastjóri og kennari við Barna- og miðskóla Blönduóss en frá 1968–1970 var hann líffræðikennari við Menntaskólann á Akureyri. Á árunum 1970–1972 lærði hann ljósmyndun við Stockholms Fotografiska Skola og stundaði doktorsnám í sjávarlíffræði við Stokkhólmsháskóla á árunum 1971–1974 ásamt rannsóknum á fjörulífi við Flatey á Breiðafirði. Árin 1970–1971 samdi Guðmundur Páll námsefnið Líf og umhverfi, ætlað 12 ára nemendum grunnskóla, og er fyrsti vísirinn að seinni stórvirkjum hans, tilraun til að sameina náttúrufræði í eina heilsteypta sýn.

Á árunum 1972–1976 starfaði hann í Flatey á Breiðafirði, var skólastjóri og kennari, stundaði náttúru- og heimildaljósmyndun og kvikmyndagerð um þúsund ára sambúð manns og náttúru í Flateyjarhreppi. Næsta áratuginn starfaði hann jöfnum höndum við köfun, hönnun bóka, trésmíðar, fiskveiðar og teikningar, meðal annars í rit Lúðvíks Kristjánssonar, Íslenzkir sjávarhættir I-IV. Árin 1984–1985 stundaði Guðmundur Páll svo listnám við Columbus College of Art and Design í Ohio í Bandaríkjunum, en frá 1985 starfaði hann samfellt sem rithöfundur, náttúrufræðingur, náttúruljósmyndari, virkur náttúruverndari og fyrirlesari heima og erlendis.

Hann hlaut margvíslega viðurkenningu fyrir verk sín, hlaut m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2001 fyrir Hálendið í náttúru Íslands og var tilnefndur til sömu verðlauna árið 1990 fyrir Perlur í náttúru Íslands, 1995 fyrir Ströndina í náttúru Íslands og 2013 fyrir Vatnið í náttúru Íslands.

 

Viðurkenningar Guðmundar Páls Ólafssonar:

1987 – Verðlaun Félags bókaútgefenda fyrir fegurð. Fyrstu verðlaun. Fuglar í náttúru Íslands.

1988 – Bókaviðurkenning Samtaka iðnaðarins. Fyrstu verðlaun. Fuglar í náttúru Íslands.

1990 – Tilnefning til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Perlur í náttúru Íslands.

1991 – Bókaviðurkenning Samtaka iðnaðarins. Fyrstu verðlaun. Perlur í náttúru Íslands.

1995 – Tilnefning til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Ströndin í náttúru Íslands.

Viðurkenning Hagþenkis.

Mission Impossible. Fyrstu verðlaun. Alþjóðleg verðlaun fyrir prentlist, myndefni og hönnun.
SGAUA (Scitex Graphic Arts Users Association) í Anaheim, Kaliforníu.

Ströndin í náttúru Íslands og Prentsmiðjan Oddi.

1996 – Bókaviðurkenning Samtaka iðnaðarins. Fyrstu verðlaun. Ströndin í náttúru Íslands.

Pálsvarða – ljósmyndaverðlaun Ferðafélags Íslands.

Viðurkenning Hins íslenzka náttúrufræðifélags.

1999 –Umhverfisverðlaun frjálsra félagasamtaka.

2001 – Íslensku bókmenntaverðlaunin. Hálendið í náttúru Íslands.

2002 – Lóð á vogarskál íslenskra bókmennta.

Viðurkenning starfsfólks í bókabúðum.

2006 – Fálkaorðan – riddarakross fyrir ritstörf í þágu náttúruverndar.

Uppfræðari ársins. Viðurkenning Fréttablaðsins.

2012 – Náttúruverndarinn. Viðurkenning náttúruverndarsamtaka fyrir ötula náttúruverndarbaráttu á Íslandi.

2013 – Tilnefning til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Vatnið í náttúru Íslands.