ASSA er áhersluverkefni AUÐLINDAR og í hennar umsjón. ASSA hefur það hlutverk að vernda íslenska haförninn og varpstöðvar hans. ASSA á jafnframt að hvetja til bættrar umgengni við villta náttúru landsins og eðlilegrar nýtingar náttúrugæða.

ASSA AUÐLINDAR verðlaunar eigendur/ábúendur jarða þar sem haförn verpir og kemur upp ungum. Verðlaunin eru hvatning og þakkir fyrir góða sambúð við náttúru landsins. Ennfremur getur sjóðurinn styrkt þá einstaklinga sem sannanlega hafa orðið fyrir búsifjum af völdum arna.

Til þess að ná markmiðum sínum getur sjóðurinn lagt verkefnum lið sem stuðla að menntun og skilningi fólks á heilbrigðum vistkerfum og mikilvægi ránfugla í þeim.

Um haförninnn

Haförninn (eða örninn) Haliaeetus albicilla er meðal sjaldgæfustu fugla landsins en talið er að hér séu nú (þegar þetta er skrifað)  63 fullorðin pör, auk ungfugla. Fram á seinni hluta 19. aldar var örninn miklu algengari og varp í öllum landshlutum en nú er útbreiðslan bundin við vestanvert landið. Vöxtur og viðkoma arnarstofnsins er lítil, þrátt fyrir alfriðun í rúm 90 ár. Á varptíma er örninn afar viðkvæmur fyrir truflunum og því misferst varpið iðulega af ógætilegri umgengni. Örninn verpur á sömu stöðum ár eftir ár og kynslóð eftir kynslóð og því er mikilvægt að tryggja vernd þessara varpstaða og annarra búsvæða arnarins. Fullorðnir ernir halda tryggð við óðal sitt árið um kring en ungfuglar flakka um landið. Haförninn verpur á Íslandi, Grænlandi og strjált í Evrópu og Asíu. Örnum var útrýmt víða í Evrópu, fyrst með beinum ofsóknum en síðar reyndist efnamengun og eyðilegging búsvæða örnum skeinuhætt. Á síðustu áratugum hafa arnarstofnar í Norður-Evrópu tekið að vaxa að nýju í kjölfar markvissra verndaraðgerða. Ernir eru þó enn alfriðaðir og á válistum alls staðar í heimkynnum sínum, þar á meðal á Íslandi.

Íslenski arnarstofninn hefur vaxið hægt og bítandi síðan um 1970, en þó mun hægar en aðrir arnarstofnar í Norður-Evrópu er rétt hafa verulega úr kútnum vegna verndaraðgerða á sama tíma. Aðalheimkynni arnarins eru við Breiðfjörð en þar halda nú til rúmlega 40 pör eða 2/3 hlutar stofnsins. Auk þess er talsvert arnarvarp við norðanverðan Faxaflóa og nokkur pör verpa á Vestfjörðum norðan Látrabjargs og í Djúpi. Ernir hafa auk þess nýlega endurheimt forn óðul á Suðurlandi og Norðurlandi.

Hlutur Hafarnar í náttúru Íslands

Haförninn er ránfugl sem situr efst í fæðukeðjunni verður af þeim sökum ávallt strjáll varpfugl, jafnvel þar sem ytri skilyrði eru honum afar hagstæð. Sterkur arnarstofn á Íslandi yrði til marks um gott heilbrigði vistkerfisins og jafnframt mælikvarði á hversu vel hefur tekist með sambúð manns og náttúru.Örn og æður nýta sama kjörlendi til varps og fæðuöflunar og hafa gert alla tíð. Ernir geta valdið tjóni á æðarvarp vilja bændur að ríkið beri þann skaða sem hlotist getur af friðun arnarins en ríkisvaldið hefur hins vegar ekki viðurkennt bótaskyldu sína. Því vilja nokkrir æðarbændur við Breiðafjörð koma í veg fyrir arnarvarp í grennd við æðarhlunnindi, heimila mönnum að reka erni burt af slíkum svæðum og hafa reyndar sumir hverjir gripið til slíkra ólöglegra ráðstafana.

Örninn á sér vart nokkurn náttúrulegan óvin hér landi og stafar því fyrst og fremst hætta af manninum og umsvifum hans. Sumt hefur bein áhrif á lífslíkur eða viðkomu einstakra fugla eins og skotmennska og vísvitandi truflun við hreiður. Umsvif mannsins hafa einnig með tímanum þrengt að búsvæðum arna, bæði fæðu- og varpstöðum. Allmörgum varpsvæðum arna hefur verið raskað, einkum með vegagerð, svo nú eru um tíundi hluti þekktra arnarsetra illbyggileg fyrir erni.

Á allra síðustu árum hafa frístundahús verið byggð víða á varpslóðum arna og eru nokkur þeirra nánast ofan í gömlum arnarhreiðrum. Þá þróun verður að stöðva. Aukin ferðamannastraumur á arnarslóðum, fyrirhyggjulausir landeigendur og framkvæmdamenn geta valdið örnum ónæði og jafnvel skaða ef fyllstu aðgátar er ekki gætt.

Vöktun & rannsóknir

Vöktun arnarins sem hófst árið 1959 er ein lengsta samfellda rannsókn á fuglastofni hér á landi. Fuglaverndarfélagið sá um þessar athuganir fyrstu áratugina í góðu samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands, sem leitt hefur verkefnið síðan 1993, með vaxandi þátttöku náttúrustofanna í Stykkishólmi, Bolungarvík og Sandgerði, að ógleymdri þátttöku áhugamanna. Rannsóknir á örnum hafa lengst af beinst að því að meta hversu margir fuglar væru á landinu og eins hversu margir ungar hafa komist á legg. Samhliða heimsóknum í hreiður hafa ungar verið merktir og fæðuleifum til greiningar. Þá hafa tvívegis farið fram ítarlegar rannsóknir á meintu tjóni af völdum arna;  1959-60 og 1991. Nýverið hófust rannsóknir á erfðabreytileika og eiturefnum í íslenskum örnum.

Höfundur: Kristinn Haukur Skarphéðinsson 2008