Hvað er votlendi?
Votlendi er heiti yfir vistkerfi sem myndast þar sem jarðvegur er meira eða minna vatnsósa. Holrýmin í jarðveginum eru fyllt af vatni og þar ríkja loftfirrðar aðstæður. Örverur og aðrar jarðvegslífverur sem háðar eru súrefni, þrífast því ekki. Af þessu leiðir að niðurbrot lífrænna efna er hægt og hálfrotanðar plöntuleifar safnast gjarnan upp. Þannig verða til þykk lífræn mólög í mýrum. Flestar plöntur vaxa illa eða ekki í vatnsósa jarðvegir en votlendistplöntur eru aðlagaðar að þessum sérstöku skilyrðum í jarðvegi. Flestar alþjóðlegar skilgreiningar á votlendi taka ekki aðeins til mýra,flóa og fenja heldur telja straumvötn og stöðuvötn til votlendis, svo og sjávarfitjar, leirur og fjörur og grunnsævi við strendur að 6 m dýpi.
Hvers vegna er votlendi mikilvægt?
Þegar litið er til vistkerfisþjónustu, eru votlendi meðal verðmætustu vistkerfa. Þau jafna og miðla vatnsrennsli og draga þannig bæði úr flóðum og þurrkum. Þau hreinsa vatn með því að binda alls kyns mengunarefni; lífræn efni, áburðarefni sem valdið geta ofauðgun, þungmálma og eiturefni. Sums staðar erlendis, t.d. hjá New York borg, er drykkjarvatn hreinsað með því að láta það renna í gegnum votlendi. Votlendi við sjó eru mikilvæg vörn gegn strandrofi. Þá eru votlendi eina búsvæði fjölmargra tegunda lífvera, t.d. fugla, smádýra og plantna. Mómýrar binda kolefni til langs tíma í lífrænum leifum og endurheimt votlendis getur dregið úr koltvísýringsmengun í andrúmsloftinu og hnattrænni hlýnun. Allmargar fuglategundir eru skilgreindar sem sérstakar íslenskar ábyrgðartegundir vegna þess að svo stór hluti heimsstofnins eða evrópska stofnsins verpir á Íslandi og stór hluti þeirra treystir meira eða minna á votlendi.
Úr votlendi fást mikilvæg hlunnindi. Áður fyrr voru engjar mikilvægar fyrir heyöflun á Íslandi og enn eru þær notaðar sem beitiland. Úr mýrum var stunginn mór en hann var notaður sem eldiviður og byggingarefni í hús og garða. Erlendis eru alls konar efni, m.a. fæða, lyf, byggingarefni fengin úr votlendi. Við ósa stórra fljóta eru oft víðáttumikil og mjög frjósöm flæðilönd. Í hitabeltinu hafa þessi svæði gjarnan verið tekin undir hrísgrjónarækt og þar eru nú sum þéttbýlustu svæði jarðar svo sem ósasvæði Ganges og Bramaputra í Bangladesh og við Gulafljót í Kína.
Hversu útbreitt er votlendi á Íslandi og hvar er það?
Um 8% Íslands teljast til votlendis. Langstærsti hluti þess er á láglendi. Aðeins um 20% liggja ofan við 400 m yfir sjó þó næstum 60% landsins sé yfir þeirri hæð. Mesta samfellda votlendið var áður fyrr á láglendi Suðurlands, í Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Talið er að um aldamótin 1900 hafi votlendi milli Ölfuss og Markarfljóts a.m.k. verið um 1000 km² að flatarmáli. Þá voru víðáttumikil votlendi á Vesturlandi, í Mýrasýslu og Borgarfjarðarsýslu, og á sunnanverðu Snæfellsnesi. Í Húnavatnssýslum er votlendi líka útbreitt, og loks má nefna heiðarnar upp af Þistilfirði og Vopnafirði á Norðausturlandi. Frjósamar flæðiengjar eru einnig við sum íslensk stórfljót. Mestu flæðiengjar landsins eru við Héraðsvötn í Skagafirði. Þar er mjög fjölbreytt og auðugt fuglalíf.
Hversu útbreitt er votlendi á Íslandi og hvar er það?
Um 8% Íslands teljast til votlendis. Langstærsti hluti þess er á láglendi. Aðeins um 20% liggja ofan við 400 m yfir sjó þó næstum 60% landsins sé yfir þeirri hæð. Mesta samfellda votlendið var áður fyrr á láglendi Suðurlands, í Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Talið er að um aldamótin 1900 hafi votlendi milli Ölfuss og Markarfljóts a.m.k. verið um 1000 km² að flatarmáli. Þá voru víðáttumikil votlendi á Vesturlandi, í Mýrasýslu og Borgarfjarðarsýslu, og á sunnanverðu Snæfellsnesi. Í Húnavatnssýslum er votlendi líka útbreitt, og loks má nefna heiðarnar upp af Þistilfirði og Vopnafirði á Norðausturlandi. Frjósamar flæðiengjar eru einnig við sum íslensk stórfljót. Mestu flæðiengjar landsins eru við Héraðsvötn í Skagafirði. Þar er mjög fjölbreytt og auðugt fuglalíf.
Hvað einkennir íslensk votlendi og hverjir eru helstu flokkar þeirra?
Hefð er fyrir því að skipta ferskvatnsvotlendi á Íslandi í þrjá meginflokka: hallamýrar, flóa og flæðimýrar. Þessi skipting fellur ekki vel að alþjóðlegri flokkun votlendis og kominn er tími til að endurskoða hana.
Hallamýrar voru áður langútbreiddastar af flokkunum þremur. Eins og nafnið bendir til, liggja þær í hallandi landi, t.d. neðarlega í fjallshlíðum. Vatnsstaða er oftast neðan jarðvegsyfirborðs og vegna þess að landinu hallar, er hreyfing á vatninu. Hallamýrar eru tegundaauðugastar af meginflokkunum þremur og mun frjósamari en flóinn er alla jafna. Auðveldast er að ræsa hallamýrarnar fram og mest hefur verið gengið á þær. Í mýrum hlaðast upp birgðir af mis-rotnuðum plöntuleifum (þar sem leifar falla til hraðar en þær rotna). Með tímanum verða til þykk mólög. Erlendis er mórinn gjarnan nær alveg hreinn, þ.e. nær eingöngu úr lífrænum leifum. Á Íslandi er hann blandaður gosösku frá eldgosum og oftast líka áfoksefnum. Mýrar á gosbeltinu, t.d. á Suðurlandi og í Vestur Skaftafellssýslu innihalda mest af steinefnum og þar er mórinn mest blandaður gjósku og áfoksefnum. Mýrar á blágrýtissvæðunum, í Mýrasýslu, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, á útskögum Miðnorðurlands, innihalda minnst af þessum efnum. Gjóska og áfoksefni gera það að verkum að íslenskar mýrar hafa ýmsa óvenjulega eiginleika, t.d. hvað varðar sýrustig og tegundasamsetningu plantna.
Í flóanum liggur grunnvatn í sverðinum eða rétt ofan yfirborðs. Hann myndast á flötu landi og vatn stendur þar kyrrt eða er á lítilli hreyfingu. Flóinn er mun tegundafátækari en hallamýrar eru yfirleitt en einkennistegund hans er klófífa.
Flæðimýrar myndast helst nálægt ósum stórra fljóta, hér á landi einkum við jökulfljót. Inn í þær berst set með rennandi vatni og því myndast þar ekki mólög sambærileg við hallamýrarnar. Flæði vatns er hratt og vatn stendur oftast ofan svarðar. Árstíðabundin flóð og upphleðsla sets eru lykilþættir í þessum vistkerfum. Flóran er tegundafátæk og í flestum íslenskum flæðilöndum er hin hávaxna gulstör ríkjandi tegund. Flæðiengjarnar eru frjósamar en þær liggja þannig í landinu að oft er mjög erfitt að þurrka þær. Víðáttumestu flæðimýrarnar eru á láglendi. Á miðhálendinu eru flæðiengjar á þremur svæðum nálægt upptökum jökulkvísla við jökla, í Hvítárnesi austan Langjökuls á Kili, í Þjórsárverum sunnan Hofsjökuls og við Eyjabakka norðan Vatnajökuls.
Loks má nefna einn meginflokk votlendis í viðbót, flár með rústum. Flár eru sífreramyndanir með nokkra sérstöðu. Þar sem meðalhiti ársins er undir frostmarki myndast sífreri í jörðu. Við loftslagsmörk sífrera á norðurhveli finnst hann helst sem svokallaðar rústir (palsas) en þær eru bungumyndaðar stórar þúfur eða litlir hólar sem hvelfast upp úr votlendi við það að innan í þeim vex ískjarni sem lyftir yfirborðinu yfir landið í kring. Fá tungumál eiga orð yfir þessi fyrirbæri en alþjóðlega orðið, palsa, er tekið úr samísku. Íslenskan á ekki aðeins orð yfir sjálfar sífreramyndanirnar heldur einnig orð til að lýsa votlendi með rústum, – þau eru kölluð flár (flá í eintölu). Rústir eru sýnilegasta birtingarmynd sífrera á miðhálendi Íslands. Neðri mörk þeirra eru nú líklega nálægt 600 m hæð yfir sjó. Efri hæðamörk rústa á miðhálendinu, 700–750 m, skýrast að mestu leyti af því að lítið samfellt votlendi liggur hærra. Flár, þ.e. mýrar með rústum, eru útbreiddari á norðanverðu miðhálendinu þar sem er þurrara og þynnri einangrandi snjóalög en sunnar. Samfelldustu og þéttustu rústamýrar á landinu eru þó í Þjórsárverum sunnan Hofsjökuls. Stærstu rústir á Íslandi eru hins vegar á Jökuldalsheiði og rísa þar 2-3 m yfir landið í kring. Í flám verður til fíngert mósaík þar sem skiptast á votlendi og tjarnir annars vegar og síðan rústabungurnar með allt öðruvísi gróður. Líffræðileg fjölbreytni verður því meiri en ella. Sums staðar, t.d. í Þjórsárverum, eru rústir mikilvægir hreiðurstaðir fyrir heiðagæs. Náttúrufræðistofnun telur rústamýravist aðra af tveimur verðmætustu vistgerðum á miðhálendinu. Íslenskar flár eru flestar nálægt loftslagsmörkum sífrera og haldi loftslag áfram að hlýna eins og spár gera ráð fyrir er líklegt að þeim muni hnigna mikið á næstu áratugum þar sem hin frosni kjarni bráðnar og þá hverfur rústin. Nokkrum sífrerasvæðum var raskað með Kárahnjúkavirkjun. Virkjanaframkvæmdir á miðhálendinu gætu ógnað nokkrum mjög sérstæðum sífrerasvæðum, einkum Orravatnsrústum norðan Hofsjökuls en þær eru einnig það rústasvæði sem hæst liggur á landinu og líklegast til að endast lengst í hlýnandi loftslagi.
Hversu miklu votlendi hefur verið eytt og hversu mikið er eftir hér á landi?
Talið er að flatarmál þess votlendis sem framræst hefur verið á Íslandi sé yfir 4.000 km2 en ekki hefur verið unnið heildaryfirlit yfir tap á votlendi hér á landi. Á Suðurlandi milli Ölfusár og Markarfljóts þar sem áður voru mestu votlendi á landinu, voru um 1990 aðeins eftir óröskuð um 3% af því votlendi sem þar var í byrjun 20. aldar. Talið er að um 18% votlendis séu eftir óröskuð á Vesturlandi. Tap á votlendi má að langmestu leyti rekja til framræslu. Landbúnaður er stundaður í einhverri mynd á 72% þeirra svæða sem eru flokkuð sem mikilvæg fuglasvæði en stærsti hluti þeirra er votlendi.
Hversu mikið hefur verið friðlýst?
Þrjú votlendissvæði á Íslandi eru friðlýst samkvæmt Ramsar sáttmálanum sem alþjóðlega mikilvæg svæði: Mývatn-Laxá, Þjórsárver og Grunnafjörður. Friðland við Miklavatn nær yfir lítinn hluta flæðiengjanna í Skagafirði.