TILGANGUR

Fé sjóðsins skal varið í þágu markmiða hans með styrkjum til einstaklinga og félaga eða samkvæmt frumkvæði stjórnar. Forgang hafa verkefni sem hvetja til samvinnu milli einstaklinga og sjóða, við félög, fyrirtæki, stofnanir og landsyfirvöld. Sjóðurinn skiptist í áherslu- eða taksverkefni og nefnast þau fyrstu Votlönd og Assa. Votlönd er samnefnari fyrir verkefni um endurheimt votlendis og Assa er samnefnari fyrir verkefni sem lúta að verndun íslenska arnarstofnsins. Stjórn getur stofnað til annarra átaksverkefna. Heimilt er að nýta fjármuni sjóðsins í alþjóðlega samvinnu enda sé hún í samræmi við tilgang sjóðsins.

Upphæð styrks getur numið allt að 50% hluta kostnaðar við vinnu, tæki og kaup á aðföngum. Stjórn ákveður hverju sinni hvaða áhersluverkefni Auðlindar eru laus til umsóknar á hverjum tíma og tilgreinir það í auglýsingu.

UMSÆKJENDUR & ÁBYRGÐ

Öllum er frjálst að senda inn umsókn hvort sem um er að ræða einstaklinga, félög, fyrirtæki eða opinbera aðila. Sum verkefni krefjast þess að umsækjendur hafi lögformlegan umráðarétt yfir því landi semverkefnin taka yfir.Verkefni sem Auðlind styrkir eru undir forsjá og á ábyrgð styrkþega og þeir eru taldir ábyrgðarmenn. Auðlind veitir ráðgjöf og fjármagnar verkefnin að hluta og hefur jafnframt eftirlit með framvindu og metur árangur þeirra. Allir styrkir, sem Auðlind veitir,eru skattskyldir; fyrir lögaðila samkv. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt og fyrir einstaklinga skv. 1. málsl. 2 tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.

UMSÓKNIR

Auglýst er árlega eftir umsóknum um styrki úr Auðlind-minningarsjóði GPÓ. Augýsingar skulu birtast bæði í fjölmiðlum og á vefsvæði sjóðsins SÆKJA UM STYRKLeitast verður til að birta auglýsingar sem víðast s.s. í helstu dagblöðum, Bændablaðinu og á vefsvæði Bændasamtakana www.bondi.is. Auglýsing skal birtast eigi síðar en um miðjan janúar ár hvert og skal miða umsóknafrest við lok febrúar. Upphæð styrkja fer eftir þeim fjármunum sem sjóðurinn hefur til ráðstöfunar á hverjum tíma. Umsækjendur eru hvattir til að fylla út umsóknarblað sjóðsins. ( sjá hér að framan) Umsækjendur / ábyrðarmenn verkefna sem hljóta styrk þurfa að skrifa undir samning sem tekur til ákvæða um upphafs- og lokatíma verksins, framkvæmdaráætlun og hvernig greiðslu styrks skuli háttað. Einstök verkefni geta hlotið styrk til allt að fimm ára, enda fylgi umsókn tímasett kostnaðar- og verkáætlun. Styrkþegi þarf að skila áfangaskýrslu og endurskoðaðri áætlun í lok hvers árs á styrktímabilinu.

STYRKHÆF VERKEFNI

Verkefni skulu tengjast markmiðum og tilgangi Auðlindar með ótvíræðum hætti.Við ákvörðun um styrkveitingar úr Votlöndum er einkum lögð áhersla á verndun og endurheimt votlendisvistkerfa til langframa og að endurheimtarverkefni séu líklegt til að skila árangri. Öll endurheimtarverkefni skulu miða að því að auka við heildarflatarmál votlendis á landinu. Votlendisendurheimt sem mótvægisaðgerð, t.d. vegna vegaframkvæmda eða ræktunar, verður einungis styrkt ef hið endurheimta votlendi er verulega stærra en það sem raskað verður.Við ákvörðun um styrkveitingu úr Össu er einkum lögð áhersla á að verkefnin séu líkleg til að stuðla að vexti íslenska arnarstofnsins og verndun hans m.a. með endurheimt helstu búsvæða og arnaróðala. Styrkir úr Össu eru ekki veittir til mótvægisaðgerða vegna áhrifa annarra framkvæmda á búsvæði eða óðul arna.

Endanleg ákvörðun um styrkupphæð og viðfangsefni liggur hjá stjórn sjóðsins.

UPPHÆÐ STYRKJA

Hámarksfjárhæð styrkja fer eftir fjölda umsókna og fjárhagsstöðu sjóðsins hverju sinni, en almennt er ekki gert ráð fyrir að hún geti orðið hærri en sem nemur 50% af kostnaði. Á árinu 2015 er hámarksupphæð kr. 500.000.

GREIÐSLA STYRKS

Við ákveðnar aðstæður, sem stjórn tekur gildar, er mögulegt að fá hluta endanlegs styrks greiddan við undirritun samnings. Eftirstöðvar eru greiddar að verkefni loknu þegar umsögn stjórnar eða eftirlitsaðila um árangur verkefnisins liggur fyrir. Ef styrks er ekki vitjað eða skilyrði fyrir veitingu hans ekki uppfyllt fyrir lok þess árs sem styrkveiting var samþykkt fellur hún niður. Heimilt er að fresta verklokum ef haldbærar ástæður liggja til þess að mati sjóðsstjórnar.