Náttúra Íslands er þjóðararfur, sameign núlifandi og komandi kynslóða. Auðlind er náttúruverndarsjóður stofnaður til að standa vörð um vistkerfi, auðlindir, lífsgæði og fjölbreytni íslenskrar náttúru og er sameign íslensku þjóðarinnar. Honum er ætlað að stuðla að verndun og efla virðingu fyrir þeim einstæða og fágæta þjóðararfi sem náttúra Íslands er. Sjóðurinn mun standa vörð um náttúru og vistkerfi Íslands, vatnafar landsins og endurheimt fyrri landgæða. Sjóðurinn mun standa vörð um náttúru og vistkerfi Íslands, vatnafar landsins og endurheimt fyrri landgæða.

Auðlind, minningar- og náttúruverndarsjóður byggir starfsemi sína á framlögum og frumkvæði einstaklinga og fjárhagslegum stuðningi fyrirtækja og opinberra aðila. Hann er fjárhagslegur varnargarður fyrir náttúru og þjóðararf Íslendinga. Með öflugri Auðlind er unnt að styðja metnaðarfull áform til margvíslegra verkefna á vegum einstaklinga, félagasamtaka og jafnvel sveitafélaga sem miða að því að endurheimta og varðveita gæði íslenskrar náttúru.

Auðlind er sjálfseignarstofnun með staðfesta skipulagsskrá . Allir einstaklingarog fyrirtæki geta gerst stuðningsaðilar. Framlög til sjóðsins eru frádráttarbær til skatts fyrir skattskylda lögaðila og einstaklinga með rekstur. Samkvæmt skipulagsskrá er heimilt að stofna til sérstakra áhersluverkefna undir merkjum Auðlindar. Tvö áhersluverkefni, Votlönd og Assa, hafa þegar verið stofnuð.

Meginmarkmið Auðlindar er að vernda og endurheimta náttúrugæði Íslands. Hlutverkið rækir sjóðurinn með því að stuðla að náttúruvernd og landvörslu og að efla vitund almennings um mikilvægi þessa með samvinnu við einstaklinga, frjáls félagasamtök, fyrirtæki, fjárfesta, sveitafélög og ríki.

• Auðlind veitir yfirvöldum aðstoð og aðhald til að land, lífríki og landgæði á Íslandi séu skráð og metin.

• Auðlind styður landnýtingaráætlun fyrir Ísland sem hefur markmið sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi.

Land sem Auðlind kaupir varðveitir hún eða selur með ákveðnum verndarkvöðum þannig að komandi kynslóðir geti notið þeirra gæða sem landið býr yfir.

• Auðlind vinnur einnig með landeigendum við að vernda og endurheimta landgæði og hvetur þá til að óska eftir að verndarkvaðir séu settar á lönd þeirra í skipulagsáætlunum, þar sem það á við.

• Auðlind styrkir verkefni sem stuðla að endurheimt landgæða og viðhaldi lífríkis á Íslandi.

AUÐLIND var formlega stofnuð á fullveldisdaginn 1. desember 2008, samkvæmt lögum um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá nr.19/1988. Framlög til sjóðsins eru öllum opin, en þau renna óskipt til þeirra verkefna sem sjóðurinn styrkir. Skattskyldir lögaðilar og einstaklingar með rekstur geta dregið framlög til sjóðsins frá skattskyldum tekjum í samræmi við reglugerð 483/1994.

LEIÐARLJÓS

Hvorki landi eða vatni verði spillt með mengandi eða eyðandi starfsemi.

MEGINSTEFNA

Stuðla að verndun og viðgangi land- og vatnsgæða á Íslandi.

GILDI

Traust – Ábyrgð – Umhyggja – Tillit